Enski boltinn

Granero: Mata hvatti mig til að semja við QPR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Það kom mörgum á óvart þegar að Spánverjinn Esteban Granero ákvað að yfirgefa Real Madrid og semja við QPR í ensku úrvalsdeildinni.

Granero er uppalinn hjá Real Madrid og lék á sínum tíma með Juan Mata í unglingaliði félagsins. Mata er í dag á mála hjá Chelsea.

„Hann hvatti mig til að koma hingað og talaði vel um Queens Park Rangers," sagði Granero í samtali við enska fjölmiðla um helgina.

„Hann er einn af mínum uppáhalds knattspyrnumönnum. Hann er afar hæfileikaríkur og góður vinur minn. Nú búum við í sömu borg og ég hafði alltaf óskað mér þess."

„Ég hef sjálfur viljað spila á Englandi síðan ég var krakki. Þetta er fæðingarland knattspyrnunnar og upplifunin af henni hér allt öðru vísi en í öllum öðrum löndum."

„Það er góð áskorun fyrir mig að spila með QPR og er ég mjög ánægður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×