Enski boltinn

Kalou: Abramovich ræður öllu hjá Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Salomon Kalou, fyrrum leikmaður Chelsea, segir að Roman Abramovich skipti sér mikið af félaginu og ekki síst leikmönnunum sjálfum.

Abramovich er eigandi Chelsea og krefst mikils af leikmönnum liðsins. „Hann hefur mjög sterkar skoðanir á því hvernig félagið skuli vera rekið," sagði Kalou sem leikur nú með Lille í Frakklandi.

„Honum finnst mikilvægt að leikmenn gleymi því ekki að þeir þurfi að leggja sig alla fram fyrir félagið. Skiptir engu hver eigi í hlut," bætti hann við.

„Roman skammaði okkur tvisvar. Einu sinni þegar Carlo [Ancelotti] var stjóri og þá unnum við tvennuna. Svo eftir að Andre Villas-Boas fór og við unnum Meistaradeildina."

„Úrslitin tala sínu máli og er mjög erfitt að gagnrýna hann því hann hefur unnið allt. Roman er venjulega mjög hlédrægur og segir ekki mikið. En þegar hann talar þá hlustar maður."

„Roman fékk bestu stjórana og bestu leikmennina til Chelsea og hjálpaði þeim að vinna allt sem í boði var. Það er það eina sem skiptir máli þegar öllu er á botninn hvolft. Ég get litið til baka og sagt að ég hafi unnið allt með Chelsea. Þetta var hápunkturinn á mínum ferli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×