Enski boltinn

Torres ætlar að endurgreiða Roman í mörkum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fernando Torres segist ætla að endurgreiða Roman Abramovich, eiganda Chelsea, í mörkum fyrir að hafa keypt sig frá Liverpool fyrir 50 milljónir punda.

Torres mistókst að skora í sínum fyrsta leik með Chelsea er liðið mætti einmitt Liverpool fyrir rúmri viku síðan.

En Chelsea mætir Fulham á útivelli í kvöld og hefur Torres ekki misst trúna á sjálfum sér.

„Þess er vænst af framherjum að þeir skori mörk og ég mun borga félaginu til baka í mörkum," sagði Torres.

„Ég hef ekki hitt Roman Abramovich. En það segir mikið um hans drauma fyrst hann er reiðubúinn að borga svo mikið."

„Við viljum allir endurgreiða honum fyrir allt það sem hann hefur gert. Ég verð að gera mitt inn á vellinum. Það er fallegt að hann borgaði svona mikið fyrir mig."

„Þegar að tímabilið byrjaði þá átti ég von á því að ég myndi spila mikið svo að ég myndi gleyma meiðslunum mínum. En tímabilið byrjaði illa hjá Liverpool."

„Það var því engin ljósglæta við enda ganganna. Svo fékk ég ótrúlegt tækifæri og get nú farið að berjast fyrir því sem ég hef alltaf viljað berjast fyrir."

Hann segir að hann hafi gert sér grein fyrir því að hann myndi fara frá Liverpool þegar að þeir Javier Mascherano og Xabi Alonso voru seldir frá félaginu.

„Fólk sem stendur fyrir utan skilur ekki allt í knattspyrnunni. Vandamálið er að eftir að Alonso og Mascherano voru seldir sá ég fyrst ljós við enda ganganna þegar að Chelsea kom til sögunnar."

„Það kom að því að minn tími hjá félaginu var liðinn. Ég vona að stuðningsmenn Liverpool skilji það einn daginn."

„Ég myndi vilja snúa aftur til Liverpool einn daginn. Ég bý yfir miklu þakklæti til fólksins, félagsins og allra í Liverpool."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×