Erlent

Bjargað úr rústum eftir níu daga

Fólk beið í röðum eftir því að fá mælingu á geislavirkni í Fukushima um helgina. fréttablaðið/ap
Fólk beið í röðum eftir því að fá mælingu á geislavirkni í Fukushima um helgina. fréttablaðið/ap
Áttræðri konu og sextán ára barnabarni hennar var bjargað úr rústum húss í Ishinomaki í Japan í gær, níu dögum eftir skjálftann þar í landi. Þau höfðu verið föst í húsinu en komust í ísskáp og gátu því nærst. Þau eru nú á spítala.

Lögregla í Japan segir nú að 15 þúsund manns í Miyagi-héraði einu hafi látist í hamförunum. Heildartala látinna fari því yfir tuttugu þúsund manns. Opinber tala látinna var í gær 8.450 og tæplega þrettán þúsunda var saknað.

Stjórnvöld hafa hafist handa við að láta byggja tímabundið húsnæði fyrir hluta þeirra sem misstu heimili sín.

Áfram er unnið í kjarnorkuverinu í Fukushima og segja yfirvöld að þau séu nálægt því að ná stjórn á aðstæðum þar. Tekist hafi að kæla niður tvo af sex kjarnaofnum versins á öruggan máta. Þrýstingur jókst þó óvænt í þriðja kjarnaofninum í gær, sem gæti orðið til þess að sleppa þurfi geislavirkri gufu út í andrúmsloftið. Mest er óttast að matur og vatn hafi orðið fyrir mengun og var flutningur á spínati og mjólk frá nágrenni kjarnorkuversins stöðvaður í gær. - þeb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×