Íslenski boltinn

Katrín tók Þóru í stutta læknisskoðun í miðjum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Katrín í leiknum í dag.
Katrín í leiknum í dag. Mynd/Daníel
Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, er einnig læknir sem getur oft komið sér vel eins og sýndi sig í leiknum gegn Noregi í dag.

Ísland vann 3-1 sigur en í seinni hálfleik fékk Þóra B. Helgadóttir markvörður högg í andlitið. Þá kom Katrín henni til aðstoðar og tók hana í stutta læknisskoðun.

„Ég ætlaði nú að rukka hana um 1500 krónur eftir leik,“ sagði Katrín í gamansömum tón. „Þóra fékk smá högg á gagnaugað og vissi svo sem að þetta væri ekkert alvarlegt. Hún vildi bara vera alveg viss og því var þetta ekki neitt stórt mál.“

„Ég reyni nú að gera sem minnst af þessu þó maður sé stundum fyrstur til að aðstoða. En yfirleitt reyni ég nú fyrst og fremst að hugsa um fótboltann.“

„Við erum líka með mjög færan lækni hér á hliðarlínunni,“ bætti hún við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×