Enski boltinn

Manchester City enskur bikarmeistari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bæði liðin í Manchester geta leyft sér að fagna í dag þar sem að Manchester City varð í dag enskur bikarmeistari. Þetta var fyrsti stóri titill félagsins í 35 ár.

Fyrr í dag varð Manchester United enskur meistari eftir 1-1 jafntefli við Blackburn. Það má því búast við því að það verði fagnað í Manchester-borg í kvöld.

Stoke var að keppa til úrslita í bikarnum í fyrsta sinn í langri sögu félagsins en þarf að bíða eitthvað enn eftir fyrsta titlinum.

Carlos Tevez fyrirliði var í byrjunarliði City í dag en hann hefur verið frá síðustu þrjár vikurnar eftir að hann meiddist á vöðva aftan í læri í leik City gegn Liverpool.

Tevez náði þó að jafna sig á meiðslunum í tæka tíð og Roberto Mancini ákvað að veðja á hann með því að setja hann í sóknarlínu City með Mario Balotelli.

Tveir leikmenn Stoke, þeir Matthew Ethrington og Robert Huth, voru báðir tæpir fyrir leikinn vegna meiðsla en Tony Pulis, stjóri Stoke, ákvað að setja þá báða í byrjunarliðið.

Manchester City var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en náði ekki að skora. Mario Balotelli átti hættulegustu marktilraun City en markvörður Stoke, Thomas Sörensen, varði glæsilega frá honum.

Stoke fékk sitt besta færi í síðari hálfleik er Kenwyne Jones var nálægt því að skora en Joe Hart, markvörður City sá við honum.

Svo skoraði Toure markið á 74. mínútu. David Silva lagði boltann fyrir Balotelli sem reyndi skot að marki. Boltinn fór af varnarmanni og beint fyrir fætur Toure sem þrumaði knettinum í netið af stuttu færi.

Stoke reyndi að jafna metin af fremsta megni en allt kom fyrir ekki.

Þetta er mikill sigur fyrir knattspyrnustjórann Roberto Mancini en City tryggði sér á dögunum þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×