Erlent

Íslendingurinn Tilikum snýr aftur eftir að hafa drepið þjálfara sinn

Fölsk ást? Tilikum virðist ekki víla fyrir sér að drepa fólk.
Fölsk ást? Tilikum virðist ekki víla fyrir sér að drepa fólk.
Drápsháhyrningurinn Tilikum, sem varð þjálfara sínum að bana snemma á síðasta ári, mun snúa aftur í Sea World í Orlando. Til stendur að háhyrningurinn muni leika listir sínar fyrir gesti strax á morgun.

Það var í febrúar á síðasta ári sem Tilikum varð þjálfara sínum, Dawn Brancheau, að bana eftir að hann greip hana í kjaftinn og dró niður á botn laugarinnar með þeim afleiðingum að hún drukknaði.

Þá var Tilikum grunaður um að hafa orðið tveimur öðrum manneskjum að bana. Andstæðingar þess að hvalurinn snúi aftur segja það tímaspursmál hvenær hvalurinn, sem er sex tonn að þyngd, muni skaða aðra manneskju.

Tilikum er ekki ókunnugur Íslandi. Hann var fangaður af skipsverjum Guðrúnar HF í október 1983 ásamt tveimur öðrum háhyrningum í Berufirði og var um tíma til sýnis í Sædýrasafninu í Hafnarfirði. Hann var síðan seldur til Bandaríkjanna en íslenskir háhyrningar voru feikilega vinsælir á fyrri hluta áttunda áratugarins eftir að slíkar veiðar voru bannaðar í Kyrrahafinu 1972.

Eftir að íslenski hvalurinn varð drekkti þjálfara sínum gerði sjónvarpsfréttastöðin CBS skoðanakönnun og kom þá í ljós að 77 prósent svarenda vildu láta drepa háhyrninginn.

Pistlahöfundur dagblaðsins Olympian var þessu ósammála. Hann hvatti þá eigendur Tilikum að sleppa hvalnum við Íslandsstrendur. Menn voru þó efins um að leggja í annað Keikó-ævintýri.

Nú er ljóst að Tilikum mun snúa aftur í skemmtanabransann. Vandræði Sea World eru þó hvergi lokið þar sem þeir standa í ströngu gagnvart bandarískum yfirvöldum, sem krefja skemmtigarðinn um 75 þúsund dollara vegna dauðsfalls þjálfarans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×