Erlent

Ástandið alvarlegt á meðan kælibúnaður er í ólagi

Eðlisfræðingur hjá Geislavörnum Ríkisins segir ástandið í kjarnorkuverinu í Japan vera mjög alvarlegt á meðan ekki hefur verið náð tökum á kælingarbúnaði versins. Almennt er þó talin lítil hætta á því að kjarnakljúfurinn springi.

Geislavarnir ríkisins hafa fylgst með þróun þessa máls í samvinnu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina og norrænar geislavarnastofnanir síðan jarðskjálftinn varð þar í gær. Sigurður Emil Pálsson eðlisfræðingur hjá stofnuninni segir hættuna nú vera á kjarnorkubráðnun í verinu ef að hlífðarhjúpur kjarnakljúfsins bregst.

„Þangað til að þeim tekst að kæla kjarnaklúfinn og ná fullum tökum á kælingunni þá getur kljúfurinn haldið áfram að hitna og þá getur það leitt til ofhitnunar á eldsneytinu. Jafnvel þótt það gerist þá þarf það eitt ekki að þýða að afleiðingarnar verði alvarlegar því að kjarnakljúfar eru hannaðir fyrir svona slys, þetta er algengasta gerð slysa sem að kjarnorkuverkfræðingar hafa miðað við síðustu áratugi," segir Sigurður Emil.

Hann segir samsvarandi slys og varð í Tjernobyl geti ekki orðið þar sem uppbygging versins er allt önnur. Sambærilegasta dæmið sé slys sem varð í kjarnorkuveri á þriggja mílna eyju í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum.

„Þar einmitt virkaði þessi hlífðarhjúpur þannig að efnin bárust ekki til umhverfis þótt að eldsneytið skemmtist vegna ofhitnunar," segir hann.

Alvarlegt slys er mögulegt í kjarnorkuverinu í Japan, en það myndi þá hegða sér öðruvísi, gerast hægar og leiða til mun minni losunar geislavirkra efna til umhverfis, jafnvel þótt hlífðarkápa myndi bregðast.

„Enn sem komið er þá höfum við ekki ástæðu til þess að ætla að jafnvel þótt þetta færi á versta veg að hjúpurinn myndi ekki virka, það getur eitthvað af efnum sloppið til umhverfis en enn sem komið þá eru ekki vísbendingar um að það verði heilsufarslega alvarlegt," segir Sigurður Emil.

Hafa skal þó í huga að upplýsingar um sprenginguna í morgun eru enn að berast frá kjarnorkuverinu og því ekki hægt að fullyrða um hverjar afleiðingarnar verða segir Sigurður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×