Bjarni Felixson snýr aftur á öldur ljósvakans í kvöld er hann tekur þátt í upphitun KR-útvarpsins fyrir leik Fram og KR í Pepsi-deild karla í kvöld.
Bjarni starfaði sem íþróttafréttamaður á Rúv í 42 ár og hefur á síðustu árum lýst leikjum í úrvalsdeild karla á Rás 2 sem nú er hætt.
„Þeir töluðu við mig í vor og ég lofaði að þegar ég myndi hætta myndi ég sennilega hjálpa þeim eitthvað. Ég verð að efna það," sagði Bjarni í samtali við Fréttablaðið í síðasta mánuði.
KR-útvarpið á sér nú langa sögu og verður útsendingin í kvöld sú 278. í röðinni.