Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, segir að það hafi ekki komð sér á óvart að hafa dregist gegn Keflavík í 16-liða úrslitum VISA-bikarkeppni karla.
„Þegar það leið á dráttinn vissi maður að þetta yrði svona. Þetta er svo sem fínt úr því sem komið er," sagði Matthías við Vísi eftir dráttinn.
Þetta er þriðja árið í röð sem FH mætir Keflavík á útivelli í bikarnum en FH tapaði hinum tveimur leikjunum, 3-1, í bæði skiptin.
„En þetta verður í Njarðvík núna. Við vinnum því í þetta skiptið," sagði Matthías í léttum dúr. Hann sagði enn fremur að það þýðir ekki að gráta það að mæta sterku liði á útivelli á þessu stigi keppninnar.
„Við mættum mjög sterku liði í 32-liða úrslitunum, bikarmeisturum Breiðabliks. Við þurfum að vinna þessi lið hvort eð er ef við ætlum okkur alla leið. Ég neita því þó ekki að minn óskamótherji var BÍ/Bolungarvík," sagði Matthías en hann er sjálfur Ísfirðingur.
FH hefur ekki fengið heimaleik í bikarnum síðan 2006. „Nei, ekki síðan að „Bikar-Höski" Eiríksson var upp á sitt besta. En við fáum vonandi bara heimaleik í næstu umferð."