Íslenski boltinn

Pape: Sé eftir því sem ég gerði

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fréttablaðið/Valli
Framherjinn ungi hjá Fylki, Pape Mamadou Faye, var í gær rekinn frá félaginu. Trúnaðarbrestur er ástæða þess að samningi við leikmanninn var rift.

Hvorki Pape né Þórður Gíslason, formaður meistaraflokksráðs Fylkis, vildu tjá sig um í hverju trúnaðarbresturinn fælist.

Þórður sagði þó að hann væri þess eðlis að ekki hefði verið annað hægt en að beita þessi úrræði þó svo það væri þeim vissulega ekki að skapi.

„Ég má ekki tjá mig um ástæður riftunarinnar,“ sagði Pape við Fréttablaðið í gær.

„Það kom mér samt svolítið á óvart að vera rekinn frá félaginu sem ég hef spilað með svo lengi,“ sagði Pape en sér hann eftir því sem hann gerði?

„Já, auðvitað geri ég það. Ég hefði ekki átt að gera þetta.“

Pape er aðeins 19 ára gamall og hann ætlar sér að finna nýtt félag til þess að leika með í framtíðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×