Enski boltinn

Gylfi með Crewe til loka leiktíðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Sigurðsson í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Gylfi Sigurðsson í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Mynd/Stefán

Gylfi Sigurðsson hefur samþykkt að framlengja lánssamning sinn við enska C-deildarliðið Crewe Alexandra.

Gylfi er leikmaður Reading, sem leikur í B-deildinni, og hefur þegar komið við sögu í sex leikjum með Crewe og skorað eitt mark.

Crewe mætir Leeds á morgun og samkvæmt The Stoke Sentinel verður gengið frá samningum Gylfa fyrir leikinn.

„Þetta ætti allt að verða frágengið á næstu dögum," sagði Gylfi. „Mér fannst það mikilvægasta að fá að spila leiki. Hjá Crewe hef ég fengið að spila stundum þrjá leiki í viku en með varaliði Reading fæ ég ef til vill að spila í annarri hverri viku."

„Vonandi fæ ég nóg að spila hér til loka tímabilsins. Ég fer þá aftur til Reading og reyni að vinna mér sæti í aðalliðinu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×