Íslenski boltinn

Ísland á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslensku leikmennirnir fagna marki í kvöld.
Íslensku leikmennirnir fagna marki í kvöld. Mynd/Daníel

Íslenska landsliðið tryggði sér í kvöld sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fer fram á Finnlandi eftir glæsilegan 3-0 sigur á Írlandi og samanlagt 4-1.

Ísland og Írland mættust í tveimur leikjum um eitt laust sæti á EM og lauk fyrri leiknum á Írlandi með 1-1 jafntefli. Ísland vann svo stórgóðan 3-0 sigur á Laugardalsvelli í kvöld og náði þar með einhverjum merkasta áfanga í íþróttasögu Íslands.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt A-landslið í knattspyrnu tryggir sér þátttökurétt í úrslitakeppni stórmóts.

Leikurinn fór fram við afar erfið vallarskilyrði. Kalt var í veðri og sjálfur völlurinn frosinn enda afar óvenjulegt að knattspyrnuleikur fari fram utandyra hér á landi á þessum árstíma.

Íslenska liðið byrjaði afar vel í þessum leik og sótti stíft. En það dró af þeim eftir því sem á leið án þess þó að Írar væru að skapa sér hættu. Það var svo eftir eina af mörgum sóknum íslenska liðsins að boltinn barst á Dóru Maríu Lárusdóttur sem var dauðafrí utarlega í teignum. Hún skaut yfir írska markvörðinn sem átti erfitt með að fóta sig eins og svo margir aðrir leikmenn í kvöld.

Írar unnu sig betur inn í leikinn í upphafi síðari hálfleiks en fljótlega tók Ísland aftur völdin. Margrét Lára Viðarsdóttir komst í hættulegt færi á 58. mínútu en írski markvörðurinn sá við henni.

Hún var hins vegar aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar er hún fékk góða sendingu frá Dóru Maríu á hægri kantinum og skoraði með skalla úr þröngu færi á nærstöng. Þar með var ljóst að Ísland væri þegar komið hálfa leiðina til Finnlands.

Á 69. mínútu kórónaði svo Dóra María glæsilega frammistöðu er hún skoraði þriðja mark Íslands eftir góðan undirbúning Margrétar Láru. Dóra María kom sér í gegnum írsku vörnina og sendi boltann fram hjá markverðinum í autt markið.

Eftir þetta var nokkuð ljóst að sigurinn væri tryggður. Sigurinn var þar að auki afar sanngjarn enda íslenska liðið mun betra í leiknum.

Lítið reyndi á Maríu í markinu sem gerði það vel sem hún þurfti að gera. Varnarmennirnir íslensku sáu til þess að hún þyrfti sem minnst að gera og áttu þeir allir stórleik í vörninni.

Reyndar áttu allir íslensku leikmennirnir góðan dag enda liðsheildin sem skiptir hér aðalmáli. Maður leiksins er þó án efa Dóra María Lárusdóttir sem skoraði tvö mörk og lagði það þriðja upp.

Leiknum var lýst beint hér á Vísi og má lesa lýsinguna hér að neðan.

20.00 Ísland á EM!!!

Leiknum er lokið. Ísland á EM!!!

19.59 Ísland - Írland 3-0

Nú er venjulegum leiktíma að ljúka og bíða leikmenn þess eins að leikurinn verði flautaður af. Áhorfendur eru vel með á nótunum hér á Laugardalsvellinum og syngja "Ísland á EM" hástöfum.

19.55 Ísland - Írland 3-0

Skipting hjá Írlandi: Stefanie Curtis út - Stephanie Roche inn (86.)

19.54 Ísland - Írland 3-0

Skipting hjá Íslandi: Sara Björk Gunnarsdóttir út - Katrín Ómarsdóttir inn (85.)

Sara Björk er búin að berjast eins og ljón allan leikinn og áhorfendur fagna henni mikið er hún hleypur af velli. Katrín er svo ekki lengi að koma sér í færi sem þó ekkert verður úr.

19.46 Ísland - Írland 3-0

Skipting hjá Írlandi: Meabh Da Burcha út - Sonya Hughes inn (77.)

19.44 Ísland - Írland 3-0

Írar reyna að sækja en íslensku varnarmennirnir eru með þetta allt á hreinu og hleypa engu fram hjá sér. Margrét Lára vann svo boltann aftarlega á vellinum, brunaði fram og gaf á Hólmfríði sem kom sér í ágætt færi en skaut yfir.

19.38 Ísland - Írland 3-0

Mark: Dóra María Lárusdóttir (69.)

Ísland er svo gott sem komið á EM!!! Staðan er orðin 3-0 og hefur Dóra María skorað sitt annað mark í leiknum. Hún lagði upp annað mark Íslands í leiknum.

Margrét Lára fékk boltann fyrir framan vítateig Íranna og átti glæsilega stungusendingu á Dóru Maríu sem stakk írsku vörnina af og setti boltann fram hjá írska markverðinum. Glæsilegt hjá íslenska liðinu.

19.29 Ísland - Írland 2-0

Mark: Margrét Lára Viðarsdóttir (60.)

En núna klikkar hún ekki! Ísland er komið í 2-0!!! Dóra María fékk boltann á hægri kantinum og á góða sendingu fyrir markið þar sem Margrét Lára er mætt og skorar úr þröngu færi á nærstöng. Einkar laglega gert.

Þar með er ljóst að þessi leikur verður ekki framlengdur en Íslendingar eru nú 30 mínútum frá því að komast á EM í Finnlandi.

19.27 Ísland - Írland 1-0

Það hefur ekki mikið sést til Margrétar Láru en hér er var hún í algeru dauðafæri. Hólmfríður á góðan sprett upp kantinn og inn í vítateig. Hún kemur boltanum á Margréti Láru sem er í frábærri stöðu en nær illa til boltans og írski markvörðurinn ver frá henni. Afar svekkjandi.

19.26 Ísland - Írland 1-0

Írar skapa sér hættu í fyrsta skipti í leiknum. Mary McDonnell á skalla að marki en Katrín pressar hana vel og María á ekki í vandræðum með að klófesta boltann.

19.23 Ísland - Írland 1-0

Skipting hjá Írlandi: Jemma O'Connor út - Olivia O'Toole inn (55.).

Olivia O'Toole kemur inn á í írska liðinu en hún kom einnig inn á sem varamaður um helgina og lagði þá upp mark Íra.

19.17 Ísland - Írland 1-0

Síðari hálfleikur er hafinn og voru dómararnir og írska liðið nokkuð lengi að koma sér út á völlinn. Orðrómur er á kreiki hér í blaðamannastúkunni að forráðamenn írska landsliðsins eru hundóánægðir með að leikurinn skuli fara fram við þessar aðstæður.

18.57 Ísland - Írland 1-0

Kominn hálfleikur og voru leikmenn ekki lengi að koma sér inn í klefa. Það er í raun ekki mikið annað hægt að segja um þennan leik en það sem kemur fram hér að neðan. Það jákvæða er að Írar eru ekkert að ná að ógna íslenska markinu og útlitið því bara nokkuð gott.

18.46 Ísland - Írland 1-0

Leikurinn líður áfram en ekki mikið hefur gerst síðustu mínútur. Þessi leikur er ekki upp á marga fiska en leikmenn eru án nokkurs vafa að gera sitt allra besta miðið við afar erfiðar aðstæður.

18.35 Ísland - Írland 1-0

Mark: Dóra María Stefánsdóttir (23.)

Jæja, þá kom markið!!! Glæsilegt! Ásta Árnadóttir fékk fína sendingu upp hægri kantinn þar sem hún fékk nóg svæði og átti sendingu fyrir markið. Boltinn fór af varnarmanni og út á Dóru Maríu. Hún tók skot að marki sem fór yfir írska markvörðinn og í markið.

Boltinn var laus en hár og sjálfsagt erfitt fyrir írska markvörðinn að fóta sig í þessum gjörsamlega fáránlegu vallaraðstæðum. Leikurinn gæti þess vegna farið fram á skautasvellinu hér í Laugardalnum.

18.28 Ísland - Írland 0-0

Nú er meira jafnræði með liðunum og Írar farnir að ná betra skipulagi á varnarleik sinn og spila boltanum ágætlega sín á milli. Ísland á þó mun hættulegri sóknir og vonandi að það fari eitt mark að detta inn fljótlega.

18.18 Ísland - Írland 0-0

Dóra Stefánsdóttir á hörkusprett inn í teig og nær til boltans á undan írska markverðinum og kemur honum fyrir markið. Írskur varnarmaður bjargar hins vegar á síðustu stundu.

18.17 Ísland - Írland 0-0

Íslendingar eru svo sannarlega við stjórnvölinn í þessum leik og komast þær írsku varla yfir miðju. Sara á skalla að marki eftir fyrirgjöf Hólmfríðar en yfir auk þess sem hún er dæmd rangstæð.

18.13 Ísland - Írland 0-0

Stórhættuleg sókn hjá íslenska liðinu. Ásta á sendingu fyrir sem Hólmfríður skallar út í teig á fjærstönginni. Þar er Margrét Lára sem skýtur að marki af stuttu færi en írski markvörðuinn bjargar í horn. Ekkert kemur úr því.

18.12 Ísland - Írland 0-0

Leikurinn hafinn og sækir Ísland í átt að Laugardalshöllinni í fyrri hálfleik.

18.03 Styttist í leik

Nú fara leikmenn senn að trítla inn á völlinn og sömuleiðis eru áhorfendur að koma sér fyrir í sínum sætum. Um fjögur þúsund miðar voru seldir um miðjan dag og verður austurstúkan væntanlega auð en sú vestanmegin ágætlega þétt setin.

17.37 Velkomin til leiks!

Velkomin til leiks hér á Vísi þar sem leik Íslands og Írlands verður lýst, eins og fram kemur hér að ofan.

Vallaraðstæður eru ekkert frábærar en vissulega góðar miðað við árstíma. Þegar þetta skrifað er hitastig við frostmark og líklega á ekki eftir að hlýna eftir því sem líður á kvöldið.

Snjór er í útjaðri vallarins en sjálfur völlurinn er að mestu laus við snjóinn. Hann er þó frosinn og örugglega ekkert frábær fyrir leikmenn. Það verður þó bara að bíða og sjá hvaða áhrif þetta hefur á leikinn.

Byrjunarlið Íslands (4-5-1):

1 María Björg Ágústsdóttir

5 Ásta Árnadóttir

8 Katrín Jónsdóttir, fyrirliði

2 Guðrún Sóley Gunnarsdóttir

3 Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir

10 Dóra María Lárusdóttir

7 Dóra Stefánsdóttir

11 Sara Björk Gunnarsdóttir

4 Edda Garðarsdóttir

6 Hólmfríður Magnúsdóttir

9 Margrét Lára Viðarsdóttir

Írland (4-5-1):

1 Emma Byrne

3 Meabh Da Burcha

4 Niamh Fahey

5 Yvonne Treacy

2 Alisha Moran

9 Mary T. McDonnel

6 Jemma O'Connor

8 Aine O'Gorman

7 Ciara Grant

11 Stefanie Curtis

10 Michele O'Brien




Fleiri fréttir

Sjá meira


×