Erlent

Forsætisráðherra Pakistan krefst lausnar dómara

Gillani við komuna í þinghúsið fyrir kosninguna.
Gillani við komuna í þinghúsið fyrir kosninguna. MYND/AFP

Yusuf Raza Gillani nýskipaður forsætisráðherra Pakistan hefur fyrirskipað að öllum dómurum sem verið hafa í haldi frá setningu neyðarlaga í landinu verði sleppt. Þetta tilkynnti Gillani nokkrum mínútum eftir að vera kosinn til embættisins af þingmönnum í dag.

Pervez Musharraf forseti lét handtaka tuga dómara í nóvember þegar hann setti neyðarlög á.

Gillani er úr Þjóðarflokk Pakistan PPP sem var sigurvegari nýafstaðinna kosninga. Þetta er í fyrsta sinn í 12 ár sem flokkurinn fer með leiðandi embætti í ríkisstjórninni. Hann mun leiða samsteypustjórn sem hefur talsverðan meirihluta.

Að lokinni kosningu í embættið í dag krafðist Gillani þess að allir dómarar sem hefðu verið handteknir yrðu látnir lausir tafarlaust. Yfirlýsingin vakti mikla hrifningu meðal flestra þingmanna á þinginu.

Dómararnir voru handteknir að skipan Musharraf vegna þess að hæstiréttur landsins átti að ákveða hvort endurkjör hans í forsetastól væri löglegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×