Erlent

Sjúkrahús í ljósum logum

Hjúkrunarfólk gætir að sjúkling sem þurfti að yfirgefa spítalann.
Hjúkrunarfólk gætir að sjúkling sem þurfti að yfirgefa spítalann.

Sjúklingar og starfsfólk hafa þurft að flýja Royal Marsden sjúkrahúsið í London eftir að eldur braust út á efstu hæð þar fyrr í dag. Þak spítalans stendur í ljósum logum og reyk leggur langar leiðir. Óttast er að sjúklingar sem voru í skurðaðgerðum þegar eldurinn braust út séu enn á skurðstofunum.

Lögreglan hefur lokað öllum götum að sjúkrahússbyggingunni. Nokkrir sjúklingar hafa verið dregnir út af spítalanum á dýnum yfir á sjúkrabílaplan í nálægð við sjúkrahúsið. Aðrir sjúklingar hafa verið keyrðir út á hjólastólum

Sky fréttastofan hefur það eftir Toni Burke, lækni á sjúkrahúsinu, að aðgerðum, sem þegar væru hafnar, yrði haldið áfram ef mögulegt væri. „Við höfum verið að reyna að koma sjúklingunum út eins skjótt og við mögulega getum. Sem betur fer höfðu margir þeirra farið heim í jólafrí," segir Burke. „Það er alger ringulreið á spítalanum og ég veit ekki hvernig ástandið verður þegar búið er að slökkva eldinn," segir Burke.

Slökkviliðsmenn segja að enn sem komið er hafi enginn látist í eldunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×