Davíð Oddsson seðlabankastjóri og fyrrverandi forsætisráðherra fagnar nú sextugsafmæli sínu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Davíð segir umræðuna um embættisveitingu sonar síns það ljótasta sem hann hafi orðið vitni að á sínum ferli.
Á meðal gesta í boðinu voru Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Geir H. Haarde forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, samstarfsfólk Davíðs úr Seðlabankanum, ráðherra og þingmenn.
Davíð var nokkuð ánægður með daginn þegar fréttastofa náði tali af honum í dag skömmu fyrir veisluna og sagðist hann þegar hafa borðað töluvert af kökum í tilefni dagsins. Á vinnustað hans Seðlabankanum var boðið upp á sérstakan hátíðarhamborgara með frönskum í dag.
Ekki er venja að afmælisboð séu haldin í Ráðhúsinu en Davíð sagði það hafa tilfinningalegt gildi fyrir sig að halda veisluna þar.