"Það eru yfirgnæfandi líkur á að snjó taki upp á Laugardalsvellinum á morgun," segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur á Stöð 2 þegar Vísir spurði hann út í horfurnar fyrir bikarúrslitaleik KR og Fjölnis á morgun.
Eins og gefur að skilja brá mönnum heldur í brún í gærkvöldi þegar sjá mátti hvíta jörð í Reykjavík svo skömmu fyrir stærsta leik ársins í knattspyrnunni.
Okkur á Vísi þótti því víst að leita á náðir sjálfs Sigga Storms til að fá nákvæmar horfur fyrir morgundaginn.
"Það er heldur mildara loft að sækja að landinu á morgun. Ég á von á hita nálægt þremur, fjórum gráðum um hádegi á morgun og björtum himni. Það eru því horfur á góðri snjóbráð á morgun og því yfirgnæfandi líkur á að völlurinn verði orðinn auður. Þá verður auk þess fremur hægur vindur" sagði Sigurður.
Hann bætir við að frost sé ekki komið í jörð að neinu gagni og því dreni völlurinn ágætlega þegar hlánar.
Leikur KR og Fjölnis hefst klukkan 14:00 á morgun.