Erlent

Páfi harmar blóðbaðið í Írak

Ekkert jákvætt gerist í Írak og blóðbaðið þar virðast engan enda ætla að taka. Þetta sagði Benedikt páfi sextándi í tilfinningaþrungnu páskaávarpi sínu í morgun. Hann harmaði hversu víða þjáningar er að finna í heiminum.

Margmenni safnaðist saman á Péturstorginu í Róm í morgun þegar Benedikt páfi sextándi flutti boðskap sinn til heimsbyggðarinnar. Hann lýsti yfir þungum áhyggjum af þeim vandamálum sem víða steðja að í heiminum. Páfi tiltók sérstaklega ástandið í Mið-Austurlöndum og í Afríku.

Páfi sagði ekkert jákvætt fylgja því ástandi sem nú ríki í Írak, þjóðin sé klofin á meðan blóðbaðið þar virðist engan endi ætla að taka og almenningur þurfi að flýja heimili sín.

Páfi harmaði einnig aukinn óróleika og óstöðugleika í Afganistan. Hann fordæmdi hryðjuverkamenn sem nota trú sína til þess að réttlæta ótal myndir ofbeldis. Heimurinn þarf frið sagði páfi.

Páfi vék einnig orðum sínum að hörmungunum í Darfur-héraði í Súdan, ofbeldisverkum í Kongó, stríðsátökum í Sómalíu og hörmungarástandinu í Simbabve.

Ávarpi páfa var sjónvarpað beint í 67 löndum. Benedikt flutti páskakveðjur fjölmörgum tungumálum þar á meðal arabísku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×