Erlent

Bresku sjóliðarnir fá að selja sögu sína

Bresku sjóliðarnir fimmtán sem fangaðir voru af Írönum gætu fengið yfir þrjátíu milljónir króna fyrir að sögu sína hjá fjölmiðlum. Breskir hermenn mega ekki selja sögur sínar, en varnarmálaráðneytið ákvað að gefa undanþágu sökum sérstakra aðstæðna.

Bresk dagblöð greiða oft háar upphæðir fyrir frásagnir sem vekja mikla athygli. Saga sjóliðanna fimmtán sem hírðust að eigin sögn í einangrun í írönskum fangaklefum með bundið fyrir augun er ein af þeim sögum sem blöðin vilja kaupa.

Íranar tóku sjóliðana höndum 23. mars síðastliðinn á Persaflóa fyrir meint landhelgisbrot. Eftir að deilan hafði staðið þrettán daga ákváðu Íranar að sleppa sjóliðunum.

Hingað til hafa þeir sem gegna herskyldu í Bretlandi ekki mátt selja sögur sínar. Varnarmálaráðuneytið hefur nú ákveðið að gefa undaþágu með sjóliðana fimmtán sökum sérstakra aðstæðna.

William Hague, talsmaður Íhaldsmanna í utanríkismálum, segir ákvörðunina setja fordæmi og vekja upp spurningar. Íhaldsmenn muni taka málið upp á breska þinginu þegar það saman á ný 16. apríl. Breskir hermenn drýgi daglega hetjudáðir í Írak og Afganistan en hafi ólíkt sjóliðunum ekki leyfi til að græða á þeim.

Max Clifford, einn þekktasti umboðsmaður fræga fólksins í Bretlandi, kallaði ákvörðunina áróðursbragð hersins.

Talið er að eina konan í hópnum Faye Turney geti búist við dágóðum greiðslum þar sem saga hennar hefur nú þegar vakið mikla athygli fjölmiðla.

Dagblaðið Sunday Times segir suma hermennina ætla að gefa 10% af hagnaði sínum til góðgerðamála .






Fleiri fréttir

Sjá meira


×