Erlent

Afganir vísa tveimur erindrekum úr landi

Ríkisstjórn Afganistan hefur ákveðið að vísa tveimur diplómötum, sem hún segir hafa stofnað til viðræðna við Talibana, úr landi. Mennirnir eru starfsmenn Sameinuðu þjóðanna annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar.

Mennirnir heita Michael Semple og Mervyn Patterson. Þeim er gefið að sök að hafa farið til Helmand héraðs og rætt við forsvarsmenn Talibana þar. Þetta vakti mikla óánægju yfirvalda sem ákváðu, eftir að tilraunir til að ná sáttum runnu út í sandinn, að gefa mönnunum 48 klukkustundir til að yfirgefa landið. Afgandkir aðstoðarmenn þeirra Smple og Patterson hafa verið handteknir.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna, Aleem Siddique, segir að afgönsk yfirvöld hafi misskilið tilgang heimsóknarinnar til Helmand héraðs. Hún hafi verið að ræða við öldunga úr ættbálkum héraðsins, þar með talið þá sem andvígir eru ríkisstjórninni, en ekki Talibana.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×