Erlent

51 látinn í Indónesíu

Að minnsta kosti 51 er látinn í Indónesíu eftir að hellirigningar orsökuðu skriðuföll í vesturhluta landsins. Rúmlega 40 manns er saknað. Tólf klukkutíma linnulaus rigning hefur verið á nokkrum svæðum Java eyju með þessum afleiðingum. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka.

El-Shinta útvarpsstöðin segir 61 látinn, en Metro TV sjónvarpsstöðin telur 59 látna. Hún greindi einnig frá því að björgunarsveitir væru að reyna að komast til hamfarasvæðanna í um 500 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Jakarta.

Árstíðabundnar rigningar orsaka gjarnan aurskriður og flóð í landinu þar sem milljónir búa í fjalllendi og nálægt ökrum við árbakka.

Sumir umhverfisverndarsinnar og embættismenn segja að rýrnun skóga sé gjarnan þáttur í skriðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×