Erlent

Tyrkneski hersinn segist hafa fellt hundruð Kúrda

Tyrkneski herinn hefur fellt hundruð kúrdískra uppreisnarmanna og gert árásir á yfir 200 skotmörk í Norður-Írak á síðustu tíu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá tyrkneska hernum í dag.

Þar segir enn fremur að allt að 175 uppreisnarmenn úr röðum Kúrda hafi fallið 16. desember síðastliðinn þegar fyrsta árásin var gerð. Stjórnvöld í Ankara heimiluðu árásir á Kúrda í október síðastiðnum og báru því við að bæði íröksks og bandarísk stjórnvöld hefðu ekki gripið til nægilegra aðgerða til þess að stöðva árásir aðskilnaðarsinna úr Verkamannaflokki Kúrdistans sem berst fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda á þessum slóðum.

Írösksk stjórnvöld hafa ekki staðfest dánartölur Tyrkja en forsvarsmaður Kúrdahéraða í Írak fordæmdi í gær árásir Tyrkja og bað þá um að hætta þeim. Við því hafa Tyrkir ekki orðið því síðast í morgun gerðu tyrkneskar orrustuþotur árásir á skotmörk innan Íraks en engan mun hafa sakað í þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×