Erlent

Segir Castro nógu hraustan til framboðs

MYND/AP

Fidel Castro, forseti Kúbu, er nógu heilsuhraustur til þess að bjóða sig fram til þings í konsingum í landinu í næsta mánuði. Þetta er mat bróður hins aldna leiðtoga, Rauls Castro, sem haldið hefur um stjórnartaumana í á annað ár vegna veikinda forsetans.

Fidel Castro, sem er 81 árs, gaf í skyn fyrir skemmstu að hann myndi hugsanlega láta af embætti á næstunni eftir nærri 50 ár á forsetastóli í landinu. Raul segir hins vegar að að hugsun bróður síns sé enn skýr og þá stundi hann líkamsrækt í tvo tíma á dag. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hann bjóði sig fram til þings í kosningum 20. janúar, en það er forsenda þess að Castro verði áfram forseti.

Raul sagði leiðtoga Kommúnistaflokksins styðja framboð bróður hans en hinn aldni leiðtogi hefur ekki látið sjá sig opinberlega frá því að hann gekkst undir aðgerð vegna veikinda í júlí í fyrra. Castro hefur þó minnt á sig með greinum í dagblöðum og ljósmyndir og kvikmyndir af honum hafa verið birtar í kúbverskum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×