Erlent

Segir Breta skapa tortryggni á kerfisbundinn hátt

Sergei Lavrov, hér til hægri, sendi Bretum tóninn í dag.
Sergei Lavrov, hér til hægri, sendi Bretum tóninn í dag. MYND/AP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sakar Breta um að vinna að því á kerfisbundinn hátt að skapa tortryggni á milli landanna tveggja.

Á blaðamannafundi í dag tjáði Lavrov sig um samskipti ríkjanna og sagði meðal annars að samstarfi leyniþjónusta og andhryðjuverkastofnana landanna væri lokið.

Þennan kulda í samskiptum Breta og Rússa má rekja til deilna um morðið á fyrrverandi njósnaranum Alexander Litvinenko í fyrra, en Bretar hafa farið fram á það að annar fyrrverandi njósnari, Andrei Lugovoj, verði framseldur til Bretlands vegna morðsins.

Því hafa Rússar neitað og brugðust Bretar við því með því að vísa fjórum rússneskum erindrekum úr landi. Rússar svöruðu í sömu mynt ásamt því að krefjast þess að Bretar lokuðu skrifstofum breska menningarráðsins utan Moskvu, en menningarráðið vinnur að útbreiðslu breskrar menningar í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×