Erlent

Talibanar hraktir á brott frá Musa Qala

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hitti breska hermenn í Bastion-herbúðunum í Afganistan í dag.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hitti breska hermenn í Bastion-herbúðunum í Afganistan í dag. MYND/AP

Afganski herinn náði í dag með aðstoð herja Atlantshafsbandalagsins að hrekja skæruliða talibana úr bænum Musa Qala í Helmand-héraði. Talibanar hafa að undanförnu ráðið lögum og lofum í bænum

Herlið hófu á föstudag árás á talibana í borginni með það fyrir augum að ná aftur stjórn þar en talibanar höfðu tekið völdin eftir að breski herinn fól öldungum í bænum valdataumana í febrúar. Fram kemur á vef BBC að bærinn hafi kjölfarið orðið miðstöð fíkniefnaviðskipta í Afganistan.

Skæruliðar talibana munu hafa flúið til fjalla til þess að ná vopnum sínum og er búist við að þeir muni svara fyrir sig á næstunni. Breskir hermenn munu að líkindum koma upp herstöð í bænum en það verður hins vegar í höndum afganskra sveita að hafa forystu um að verja bæinn.

Sigurinn í Helmand vannst á sama tíma og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, kom til Afganistans þar sem hann fundaði með Hamid Karzai, forseta landsins, og hitti breska hermenn í Bastion-búðunum í Helmand.

Hrósaði Brown hermönnunum fyrir framgöngu þeirra í Musa Qala og vonaðist til þess að NATO-hersveitirnar gætu ásamt afgönskum sveitum ráðið niðurlögum talibana og komið á friði í Afganistan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×