Erlent

Íranar fagna nýrri kjarnorkuvopnaskýrslu Bandaríkjamanna

Íranar fögnuðu í morgun niðurstöðum skýrslu leyniþjónustustofnana í Bandaríkjunum þess efnis að Íranar hafi hætt að þróa kjarnorkuvopn árið 2003.

Mottaki utanríkisráðherra Írans sagði í samtali við ríkisútvarp Írans í morgun að það væri ánægjulegt að þær þjóðir sem hefðu haft efasemdir um Írana í fortíðinni horfðu nú raunsætt á hlutina. Áætlanir Írana í kjarnorkumálum væru friðsamlegar og þeir hefðu aldrei ætlað að smíða kjarnorkuvopn.

Demókratar í Bandaríkjunum gera nú kröfu um að Bush-stjórnin breyti stefnu sinni gagnvart Íran í ljósi hinna nýju upplýsinga en stjórnendur í Hvíta húsinu hafa gengið hart fram í ásökunum sínum um kjarnorkuvopnavæðingu Írans.

Ekki eru þó allir sannfærðir í málinu því Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, lét hafa eftir sér í morgun að Íranar hefðu að líkindum hafið kjarnorkuvopnaþróun á ný og því hefði aðeins verið um að ræða tímabundna stöðvun á þróunarvinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×