Erlent

Loftlagsbreytingar valda meiri skaða en heimsstyrjaldir

MYND/AP

Þær loftlagsbreytingar sem menn standa frammi fyrir á jörðinni munu valda meiri eyðileggingu en báðar heimsstyrjaldirnar gerðu. Þetta segir Sir Nicholas Stern, ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum.

Í grein í Guardian í dag bendir Stern á að takast verði á við loftlagsvandann á hnattræna vísu og það kalli á samtarf allra þjóða heims. Markmiðið verði að draga úr útblástri gróðurhúsalofttegunda um 80 prósent fyrir árið 2050.

Þá nefnir Stern til sögunnar þrjú lykilatriði í baráttunni við loftslagsbreytingar, það er að berjast gegn skógareyðingu, þróa tækni til að draga úr koltvíoxíðmengun og aðstoða fátækari lönd heims við það að takast á við loftlagsbreytingar, en þau verði fyrst og mest fyrir barðinu á þeim.

Með þessu tekur Stern undir með fjölmörgum sem hvetja þjóðir heims til þess að komast að samkomulagi um nýjan alþjóðlegan sáttmála um samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda. 180 þjóðir funda nú á Balí í Indónesíu um nýjan samning sem á að taka við þegar Kyoto-bókunin rennur út eftir fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×