Erlent

Pútín: Kosningarnar voru lögmætar

Vladímír Pútín Rússlandsforseti vísar því á bug að kosningarnar í gær hafi ekki verið lýðræðislegar.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti vísar því á bug að kosningarnar í gær hafi ekki verið lýðræðislegar. MYND/AP

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, blés á gagnrýnisraddir frá Evrópusambandinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í dag og sagði þingkosningar í landinu lögmætar og bera vott um vaxandi styrk Rússlands á sviði efnahagsmála og stjórnmála.

Flokkur Pútíns, Sameinað Rússland, hlaut rúmlega 64 prósent atkvæða í kosningunum í gær og hefur Pútín nú þann þingmeirihlutann sem þarf til að breyta stjórnarskrá Rússlands þannig að hann geti boðið sig fram til forseta þriðja kjörtímabilið í röð.

ESB og ÖSE gagnrýndu í morgun kosningarnar og sögðu þær ekki sanngjarnar þar sem mál- og fundafrelsi hefði verið virt að vettugi í kosningabaráttunni.

Pútín lét sér hins vegar fátt um finnast og sagði að Rússar myndu aldrei leyfa landinu að þróast í átt til eyðingar líkt og í gerðist nú í nokkrum fyrrverandi ríkjum Sovétríkjanna. Mikilvægast væri að landið væri nú sterkara, ekki aðeins efnahagslega heldur einnig félagslega og sömuleiðis á sviði stjórnmála. Stöðugleiki væri nú í stjórnmálum í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×