Erlent

Forseti Súdans náðar Gibbons

Forseti Súdans náðaði í dag bresku kennslukonuna Gillian Gibbons sem dæmd hafði verið fyrir guðlast við kennslu í landinu. Gibbons verður sleppt úr haldi síðar í dag eftir því sem breskir miðlar greina frá.

Mál Gibbons hefur vakið heimsathygli en hún var í síðustu viku dæmd í 15 daga fangelsi fyrir að heimila nemendum sínum að nefna bangsa Múhameð. Vakti dómurinn mikla reiði í Súdan og vildu sumir þyngri dóm yfir henni fyrir að vanvirða spámanninn.

Bresk stjórnvöld lýstu hins vegar furðu sinni á dómnum og eftir fund Omars al-Bashirs, forseta Súdans, með tveimur af forystumönnum múslíma í Bretlandi ákvað forsetinn að náða Gibbons.

Hún verður flutt síðar í dag í breska sendiráðið í Kartúm og í framhaldinu heim til Bretlands. Í yfirlýsingu frá Gibbons sem birt var í dag segist hún bera mikla virðingu fyrir íslam og harmar að hafa valdið einhverjum sárindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×