Erlent

Átak gegn rapptónlist

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Rapparinn 50 Cent hefur ábyggilega haft áhrif á íranska rappara.
Rapparinn 50 Cent hefur ábyggilega haft áhrif á íranska rappara.
Írönsk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau ætluðu sér að hefja sérstakt átak gegn rapp tónlist, sem þau telja hinn mesta skaðvald.

Ekki er ljóst hvort öll tónlist af þessum toga verður bönnuð. Mohammad Dashtgoli, menningarmálaráðherra Írana, sagði að ólöglegum hljóðverum yrði lokað og söngvarar látnir svara til saka.

Rapp tónlist með textum sem hafa pólitíska eða kynferðislega skírskotun nýtur sífellt meiri vinsælda í Íran, en stjórnvöld hafa áhyggjur af því að skilaboðin í textunum geti verið særandi. Í sumum tilfellum er rapp tónlist leyfð og tónlistarmenn sem vilja gefa út tónlist eða halda hljómleika verða þá að gera það í samráði við stjórnvöld. Haft er eftir menningarmálaráðherranum að hann vilji ná betri stjórn á dreifngu tónlistar á Internetinu.

Íranskir rapptónlistarmenn eru undir miklum áhrifum frá bandarískum söngvurum. Stjórnmálaskýrendur segja að það sem vaki fyrir írönskum stjórnvöldum sé að koma í veg fyrir vestræn menningaráhrif í landi sínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×