Erlent

Blackwater málaliðum stefnt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Blackwater málaliðum hefur verið stefnt.
Blackwater málaliðum hefur verið stefnt.
Blackwater málaliðar eru sakaðir um að hafa hundsað skipanir og yfirgefið herstöðvar sínar rétt áður en þeir hófu árás sem varð 17 íröskum borgurum að bana á Nisoor torgi í Bagdad í september.

Þetta kemur fram í stefnu gegn þeim sem undirréttur í Washington þingfesti í vikunni. Í stefnunni er Blackwater fyrirtækið einnig sakað um hafa ekki látið málaliðana taka lyfjapróf, þrátt fyrir grun um að þrír af hverjum fjórum þeirra noti stera og önnur efni sem skerða dómgreind. Talskona Blackwater sagði í gær að málaliðum væri óheimilt að nota stera en neitaði að tjá sig um ákæruskjalið að öðru leyti.

Blackwater málaliðunum var stefnt vegna fimm Íraka sem létu lífið og tveggja sem særðust illa í árásunum í september. Það eru lögfræðingar sem vinna fyrir Stofnun um stjórnarskrárbundin réttindi sem lögðu fram stefnuna á mánudaginn. Þeir segja að málaliðarnir hafi yfirgefið svæði sem þeir áttu að halda sig á jafnvel þótt skýrt hafi verið kveðið á um að þeir mættu það ekki.

Dómsmálaráðuneytið í Bandaríkjunum kannar nú hvort mögulegt sé að ákæra mennina fyrir ódæðisverk þeirra jafnvel þótt utanríkisráðuneytið hafi lofað þeim friðhelgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×