Erlent

Bangsakennarinn orðin tilefni milliríkjadeilu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Enn er ekki vitað hvort einhver þessara sé kallaður Múhameð.
Enn er ekki vitað hvort einhver þessara sé kallaður Múhameð.
Mál breska kennarans Gillian Gibbons og bangsans Múhameð er orðið að alvarlegri milliríkjadeilu Breta og Súdana. Gillian á yfir höfði sér ákæru fyrir að svívirða múslima en hún gaf sjö ára gömlum nemendum sínum leyfi til þess að nefna bangsann sinn Múhameð.

Utanríkisráðuneytið í Súdan reyndi í gær að gera lítið úr þessum deilum. Ali al-Sadeq talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði að bresk stjórnvöld hefðu enga ástæðu til að óttast borgara sína sem staddir eru í Súdan. Hann lagði áherslu á að yfirmenn Gibbons hefðu beðið foreldra, nemendur og súdönsku þóðina afsökunar á misgjörðum hennar.

Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, sagði í gær að hann vonaðist til þess að Gillian Gibbons yrði fljótlega sleppt úr gæsluvarðhaldi. Hann sagði að bresk stjórnvöld væru í sambandi við Súdani vegna þessa máls og gerðu það sem í þeirra valdi stæði til að tryggja öryggi Gibbons.

Almenningur í Bretlandi krefst þess að Gibbons verði leyst úr haldi. Múslimaráðið í Bretlandi hvetur súdönsk stjórnvöld til þess að beita sér í málinu. Muhammad Abdul Bari framkvæmdastjóri Múslimaráðsins segir mál Gibbons vera mjög leiðinlegt. Gibbons hafi augljóslega ekki ætlað sér að valda neinum skaða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×