Erlent

Sextíu franskir lögreglumenn slösuðust í átökum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglumenn reyna að hafa hemil á óeirðarseggjum í París.
Lögreglumenn reyna að hafa hemil á óeirðarseggjum í París.
Til átaka kom á milli franskra ungmenna og lögreglunnar í úthverfi Parísar aðra nóttina í röð. Lögreglan er sökuð um að bera ábyrgð á því að tvö ungmenni létust þegar vélhjól sem þau óku skall saman við lögreglubíl um helgina.

Franska lögreglan segir að fleiri en sextíu lögreglumenn hafi slasast í átökunum í nótt. Kveikt var í fjölmörgum bifreiðum, þar á meðal lögreglubíl, og heimildir herma að skotið hafi verið að lögreglumönnum. Lögreglan skaut táragasi og gúmmíkúlum að óeirðarseggjum til að hafa hemil á þeim.

Í óeirðunum í fyrrinótt var kveikt í að minnsta kosti 30 bifreiðum og nokkrum byggingum, þar á meðal lögreglustöð. Þá slösuðust tuttugu og sex lögreglu- og slökkviliðsmenn og níu voru handteknir.

Ungmennin segja lögregluna bera ábyrgð á vélhjólaslysinu og saksóknari mun ákæra ökumann lögreglubílsins fyrir manndráp. Lögreglan segir hins vegar að vélhjólið hafi verið á of miklum hraða, það hafi ekki verið skráð sem götuhjól og að ungmennin sem létust hafi ekki verið með hjálma og hundsað umferðarreglur. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hvetur ungmennin til að sýna stillingu og vill láta dómstóla um að úrskurða hver beri ábyrgð á því að ungmennin létust



Fleiri fréttir

Sjá meira


×