Erlent

Átök milli lögreglu og ungmenna í París í nótt

Til óeirða kom í París í nótt að því er virðist vegna umferðarslyss í borginni. Þar létust tveir ungir piltar eftir árekstur vélhjóls sem þeir voru á og lögreglubíls.

Lögregla segir þá hafa stolið hjólinu en hvorugur þeirra var með hjálm þegar slysið varð. Hins vegar var lögregla ekki að elta piltana.

Ungmenni í úthverfinu Villiers-le-Bel í París reiddust við tíðindin og kveiktu í lögreglustöð í hverfinu og sömuleiðis nokkrum bílum. Til átaka kom svo milli lögreglu og ungmennanna og slösuðust nokkrir lögreglumenn í þeim átökum. Að minnsta kosti sjö manns voru handteknir.

Óeirðirnar þykja minna á upphlaup sem varð víða í borgum Frakklands árið 2005 í kjölfar þess að tveir piltar létust í rafmagnsstöð þar sem þeir földu sig fyrir lögreglu. Þær óeirðir voru þær verstu í Frakklandi í 40 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×