Erlent

Santa Ana vindurinn í rénun

Santa Ana vindurinn sem haldið hefur lífi í skógareldunum í Kalíforníu og náði á tímablili styrk fellibyls, er í rénun. Þetta hafa slökkviliðsmenn nýtt sér og hafa í nótt hamast við að skvetta vatni úr flugvélum á stærstu eldana í San Bernardino fjöllunum með góðum árangri.

Allt að ein milljón hefur neyðst til að yfirgefa heimili sín síðustu daga og að minnsta kosti þrír hafa látist vegna eldanna, sem farið er að tala um sem mestu náttúruhamfarir í sögu Kalíforníu. En þrátt fyrir að vindana lægi þá standa slökkviliðsmenn enn frammi fyrir risavöxnu verkefni því rigning er ekki í veðurkortunum að sinni.

Rúmlega fimmtán hundruð heimili eru brunnin og er talið að eignatjón nemi þegar um einum milljarði bandaríkjadala. George Bush Bandaríkjaforseti heimsækir hamfarasvæðið í dag en í gær hafði hann lýst yfir verulegum hamförum í sjö sýslum Kalíforníu.

Eldarnir hafa brunnið á yfir sautjánhundruð ferkílómetra svæði allt frá Santa Barbara í vestri og að landamærum Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×