Erlent

Tyrkir reiðubúnir til innrásar hvenær sem er

Tayyip Erdogan forsætisráðherra Tyrklands sagði í dag að Tyrkir kynnu að ráðast inn í Írak hvenær sem er til að elta uppi kúrdíska skæruliða. Spenna magnast á landamærunum og fátt bendir til að diplómatísk lausn sé í sjónmáli.

Kúrdískir skæruliðar hafa gert ítrekaðar árásir á tyrkneska hermenn undanfarið, nú síðast á sunnudag þegar þeir felldu tólf og tóku átta í gíslingu. Á þessum slóðum - Tyrklandsmegin landamæranna - búa um sex milljónir manna, þar af helmingurinn Kúrdar.

Um fimm þúsund kúrdískir skæruliðar hafast við í fjöllunum á landamærum Tyrklands, Íraks og Írans. Tyrkir hafa nú safnað sextíu þúsunda manna herliði saman við landamærin og búa sig undir að ráðast á þá, hvort heldur er Tyrklands- eða Íraksmegin landamæranna.

Meðal möguleika sem nú eru fyrir hendi er að Bandaríkjamenn geri loftárásir á skæruliðana, að yfirvöld í Kúrdahéruðum Íraks snúist gegn þeim og að Tyrkir ráðist yfir landamærin, sem er kanski líklegast.

Fjallabúar á landamærunum kunna illa við þá stöðu sem nú er komin upp. Tyrkneski herinn hefur skotið úr fallbyssum upp í fjöllin og ef til átaka kemur verða þeir milli steins og sleggju.

Í dag voru tyrknesku hermennirnir tólf sem féllu í átökunum á sunnudag bornir til grafar. Þrýstingur á stjórn Erdogans forsætisráðherra að grípa til vopna er mikill og vaxandi.

Tyrkneski herinn hefur verið að senda þungavopn að landamærunum á undanförnum dögum, skriðdreka, brynvarða bíla og fallbyssur. Herinn er því að gera sig kláran og bíður bara eftir fyrirmælum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×