Erlent

Tvær íslenskar fjölskyldur hafa flúið elda í Kaliforníu

Þórir Guðmundsson skrifar

Hundruð þúsunda manna eru á flótta undan skógareldum í Kaliforníu, þeirra á meðal Íslendingar sem búa í San Diego sýslu, suður af Los Angeles. Heimili að minnsta kosti eitt þúsund fjölskyldna hafa þegar orðið eldhafinu að bráð.

Fimmtán hundruð þjóðvarðliðar berjast nú gegn fimmtán eldum í San Diego sýslu við hlið slökkviliðs og lögreglu, sem notast við rúmlega þrjú hundruð slökkviliðsbíla, nítján sérútbúnar flugvélar og átta stórar þyrlur. Með ólíkindum þykir að aðeins einn maður skuli hafa látið lífið.

Stefán Karl Stefánsson leikari var að hjálpa nágranna sínum að losa fugla úr dýragarðinum í San Diego þegar við náðum í hann í dag. Hann sagðist vera með íslenska fjölskyldu í gistingu hjá sér sem hefði þurft að rýma hús sitt og að hann hefði heyrt af annarri sem hefði flúið hús sitt í gærkvöldi.

Fön-vindur eða hnúkaþeyr, sem heimamenn kalla Santa Ana vind og kemur frá Klettafjöllum inn yfir sléttuna sunnan við Los Angeles, magnar bálið. Eldhafið breiðist því stöðugt út og stöðugt berast boð til fleiri fjölskyldna um að yfirgefa heimili sín.

Fyrir fjórum árum kviknuðu skógareldar á þessu sama svæði. Þá létust 22 og þrjú þúsund heimili brunnu til kaldra kola. Eldarnir nú eru taldir verri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×