Erlent

Lést þegar óðir apar réðust á hann

Aparnir eru í hávegum hafðir í Delhí.
Aparnir eru í hávegum hafðir í Delhí. MYND/Getty

Aðstoðarborgarstjórinn í Delhí á Indlandi lést af völdum höfuðáverka þegar hann féll fram af svölum á heimili sínu er hann reyndi að verjast árásum apanna sem gerðu aðsúg að honum. Yfirvöld í Delhi hafa lengi reynt að stemma stigu við apaplágunni sem herjað hefur á borgina en aparnir brjótast inn í hús og musteri og fara um ruplandi og rænandi og hræða fólk.

Hæstiréttur landsins hefur krafist þess að borgaryfirvöld ráði bót á vandanum en tilraunir til þess hafa lítinn árangur borið. Ein aðferðin sem menn hafa reynt er að þjálfa upp hópa af stærri öpum sem ætlað er að ráðast á hina smáu en illvígu Rhesus apa. Þá hafa apafangarar verið skipaðir til þess að fanga apana og sleppa þeim í frumskóginum í nágrenni Delhi.

Hindúar bera ótakmarkaða virðingu fyrir öpunum þar sem þeir trúa því að guðinn Hanuman taki sér bólfestu í þeim. Af þeim sökum kemur ekki til greina af hálfu yfirvalda að drepa apana. Þvert á móti er algengur siður á meðal hindúa í Delhí að gefa þeim hnetur og banana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×