Erlent

Íranar öskuillir út í Frakka

Bernard Kouchner í sjónvarpsviðtalinu þar sem hann lét ummælin falla í gær.
Bernard Kouchner í sjónvarpsviðtalinu þar sem hann lét ummælin falla í gær. MYND/AFP

Utanríkisráðherra Frakka varaði umheiminn í gær við kjarnorkuáætlun Írana  og sagði ráðlegast að undirbúa stríð á hendur þeim vegna hennar. Viðvörunin hefur vakið afar hörð viðbrögð í írönskum fjölmiðlum sem segja Frakka apa eftir Bandaríkjamönnum og að Nicolas Sarkozy forseti sé undir miklum bandarískum áhrifum.

Bernard Kouchner utanríkisráðherra Frakka sagði að búast yrði við hinu versta, og það versta væri stríð.

Kjarnorkuáætlun Írana verður tekin fyrir á kjarnorkuráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg í Austurríki. Íranar neita að þeir séu að koma sér upp kjarnavopnum og segja áætlunina einungis til framleiðslu rafmagns fyrir íbúa landsins.

Yfirvöld í Teheran neita alfarið að hætta auðgun Úrans sem Bandaríkin og önnur Vestræn ríki óttast að verði notað til framleiðslu kjarnavopna.

Kouchner sagði að samningaviðræður við Íran ættu að halda áfram til enda, en að kjarnavopn myndu skapa mikla hættu fyrir heimsbyggðina. Hann sagði einnig að fjöldi stórra franskra fyrirtækja hefði verið ráðið frá því að eiga viðskipti í Íran.

Fjölmiðlar í Íran brugðust við með fyrirlitningu og segja frönsk stjórnvöld undir vilja Hvíta hússins. Yfirlýsingar Frakka séu bæði harðari og óskynsamlegri en þær bandarísku og til þess fallnar að valda ólgu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×