Erlent

Fjölþjóðlegur hópur um borð í vélinni

MYND/AP

Í það minnsta 87 manns hafa fundist látnir eftir að farþegaflugvél frá taílenska lággjaldaflugfélaginu One-Two-Go brotlenti á Phuket-eyju í suðurhluta Taílands fyrr í dag.

Alls voru 130 manns um borð, 123 farþegar og sjö í áhöfn, og voru 42 fluttir sárir á sjúkrahús. Talið er að um helmingur farþeganna hafi verið útlendingar en sænskir miðlar greina frá því að tveir Svíar hafi verið meðal þeirra sem komust lífs af úr slysinu. Auk þeirra lifðu 14 Taílendingar, átta Bretar, fimm Íranar, fjórir Þjóðverjar, tveir Ísraelar og Hollendingur, Frakki, Íri, Ástrali, Ítali, Kanadamaður og Austurríkismaður slysið af.

Utanríkisráðuneytið hefur falið ræðismanni Íslands að kanna hvort einhver Íslendingur hafi verið í vélinni en engar fregnar hafa borist af því enn.

Vélin var að koma frá Bangkok til Phuket-eyju, sem er vinsæll ferðamannastaður, og var slæmt skyggni á eyjunni vegna rigningar. Flugstjórinn hugðist hætta við lendingu á Phuket-flugvelli en það tókst ekki betur en svo að flugvélin steyptist niður og brotnaði í tvennt. Eldur kom í kjölfarið upp í vélinni og segja þeir sem komust lífs af að fjölmargir farþegar hafi orðið honum að bráð.

Flugslysið í dag er það mannskæðasta í landinu í nærri níu ár en í desember 1998 lést 101 þegar vél á vegum Thai Airways hrapaði til jarðar. 45 komust lífs af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×