Erlent

SAS aflýsir yfir 160 flugferðum næstu þrjá daga

Lendingarbúnaður SAS-vélar gaf sig í lendingu á flugvellinum í Vilníus á miðvikudag.
Lendingarbúnaður SAS-vélar gaf sig í lendingu á flugvellinum í Vilníus á miðvikudag. MYND/AP

Enn er óljóst hvenær norræna flugfélagið SAS getur notað Dash-8 vélar sínar á ný en þær voru kyrrsetar fyrr í vikunni vegna tíðra bilana. Flugmálayfirvöld taka afstöðu til þess á mánudag hvort flugbanni vélanna verði aflétt en hvort sem verður búast forsvarsmenn SAS ekki við því að vélarnar fari í loftið fyrr en á miðvikudag. Þeir hafa því aflýst um 160 flugferðum næstu þrjá daga.

Flugfélagið hefur gripið til þess ráðs að leigja vélar, meðal annars af Sterling og My Travel, en heldur fram sem horfir mun félagið tapa yfir milljarði króna á kyrrsetningu Dash-8 vélanna.

Þá vinnur SAS að því að koma ellefu Dash-flugvélum sem kyrrsetar voru á flugvöllum í Evrópu aftur til höfuðstöðvanna í Kaupmannahafön og Svíþjóð. Þar á að rannsaka vel lendingarbúnaðinn svo flugslysin í Álaborg og Vilníus endurtaki sig ekki, en í báðum tilvikum gaf hjólabúnaður Dash-8 véla sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×