Erlent

Fyrrverandi dómari talinn líklegur dómsmálaráðherra

Talið er líklegt að fyrrverandi alríkisdómari í New York verði næsti dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og taki við af Alberto Gonzales sem sagði af sér á dögunum.

Leit að eftirmanni Gonzales, sem lét af störfum á föstudag, er brátt á enda og er jafnvel talið að George Bush tilkynni um nýjan dómsmálaráðherra í næstu viku. CNN-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum innan stjórnkerfisins að Michael B. Mukasey, fyrrverandi yfirdómari við alríkisrétt í New York, sé talinn álitlegastur í stöðuna. Hann þykir frjálslyndur af repúblikana að vera en talið er að demókratar á þingi muni ekki staðfesta skipun á manni sem þykir of íhaldssamur.

Mukasey er 66 ára og lét af störfum sem dómari í fyrra og sneri sér aftur almennum lögfræðistörfum í New York. Hann er talinn hafa staðið sig vel í embætti yfirdómara í New York. Meðal mála sem komu til kasta hans var mál á hendur sjeik Omar Abdel Rahman og ellefu samstarfsmönnum hans sem voru ákærðir fyrir að leggja á ráðin um að sprengja upp ýmsar byggingar í New York á tíunda áratug síðustu aldar, þar á meðal World Trade Center.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×