Erlent

Bush tilkynnir um fækkun í herliði

George Bush Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi til þjóðar sinnar í gærkvöldi að hluti bandarískra hermanna í Írak verði kallaðir heim. Í ræðu sinni sagði Bush að 5700 hermenn yrðu kallaðir heim fyrir jól og að þúsundir myndu fylgja í kjölfarið fram á mitt næsta sumar.

Hann sagðist taka mark á ráðleggingum Petreusar hershöfðingja sem gaf þingnefnd á bandaríkjaþingi skýrslu um ástand mála í írak nú í vikunni. Áætlanir Hvíta hússinns gera ráð fyrir því að dregið verði markvisst úr liðsaflanum þannig að næsta sumar verði fjöldi bandarískra hermanna í landinu sá sami og hann var áður en ákveðið var að fjölga í liðinu um 30 þúsund manns í janúar á þessu ári.

Demókaratar á Bandaríkjaþingi brugðust hart við ræðu forsetans. Þeir hafa kallað eftir breyttum kúrsi í Írak og segja áætlun Bush litlu breyta. Hillary Clinton, fyrrum forsetafrú sem sækist eftir tilnefningu demókrata í næstu forsetakosningum segir að áætlun Bush forseta gangi of skammt og komi of seint til þess að hún skipti nokkru máli.

Barak Obama sem sækist einnig eftir embættinu, tók í svipaðan streng og benti á að herinn gæti einfaldlega ekki haldið úti 160 þúsund hermönnum í landinu og því þyrfti hann að draga saman seglin. Eftir sem áður verði 130 þúsund hermenn í landinu sem sé allt of há tala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×