Erlent

Abe fluttur á sjúkrahús á barmi taugaáfalls

Þórir Guðmundsson skrifar

Shinzo Abe forsætisráðherra Japans var færður á sjúkrahús í morgun, sólarhring eftir að hann tilkynnti um afsögn sína. Innlögn forsætisráðherra Japans á sjúkrahús gefur vísbendingu um hvílíkur þrýstingur er búinn að vera á manninn undanfarið.

Shinzo Abe er 52 ára. Hann hefur legið undir mikilli gagnrýni fyrir frammistöðu sína sem forsætisráðherra, gagnrýni sem leiddi til þess að hann sagði af sér í gær. En í morgun var farið með hann á sjúkrahús, dauðuppgefinn og á barmi taugaáfalls.

Læknar segja að hann hafi misst fimm kíló á síðustu tveimur mánuðum. Vinsældir hans voru komnar niður í um 30 prósent. Fjórir ráðherrar í stjórn Abes hafa sagt af sér á stjórnartímanum og í maí tók landbúnaðaráðherrann eigið líf í kjölfarið á fjármálahneyksli. Stjórn Japans er nú í uppnámi.

Enn er ekki búið að útnefna eftirmann Abes og heldur ekki starfandi forsætisráðherra. Líkur eru á að stjórnarflokkurinn boði til kosninga. Forveri Abes, hinn vinsæli Junichiro Koizumi, er talinn hugsanlegur arftaki þó að hann muni hafa þvertekið fyrir að taka aftur við forsætisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×