Enski boltinn

Peter Shilton: Robinson er valtur í sessi

NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum markvörðurinn Peter Shilton á að baki fleiri landsleiki en nokkur annar fyrir Englands hönd. Hann telur að Paul Robinson hjá Tottenham verði að herða sig ef hann ætli ekki að missa stöðu sína sem markvörður Englendinga númer eitt og þykir hann alls ekki nógu traustur milli stanganna.

"Robinson átti upp og niður tímabil bæði með Tottenham og enska landsliðinu. Hann átti það til að vera frábær á HM, en svo var hann mjög óstöðugur inn á milli. Markið klaufalega sem hann fékk á sig gegn Króötum forðum var svo sem ekki honum að kenna, en það er til marks um það hvernig menn horfa á hann í dag.

Hann er ekki nógu grimmur í að verja teiginn sinn og það kemur mér á óvart. Hann hefur að mínu mati ekki náð að festa sig í sessi til að geta talist landsliðsmarkvörður númer eitt. Hann er líklega fyrsti kostur í dag, en það er aðallega vegna reynslu. Ég er viss um að Scott Carson og Ben Foster eru að gera sitt besta til að komast fram fyrir hann í goggunarröðinni hjá landsliðinu," sagði Shilton í samtali við Sun, en hann lék á sínum tíma 125 landsleiki fyrir Englendinga á árunum 1970-90.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×