Erlent

Telur 80 prósent fanga haldið í einangrun

MYND/Reuters

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að svo virðist sem fjórum af hverjum fimm föngum í Guantánamo-búðunum sé haldið í einangrun og það stangist á við fyrri stefnu Bandaríkjastjórnar um að milda aðstæður í búðunum.

Í nýrri skýrslu samtakanna um aðbúnað í fangabúðunum er því haldið fram að flestir fanganna hafi sætt harkalegri meðferð í varðhaldi. Þá sé föngum haldið í eingangrun 22 tíma á sólarhring í stálklefum sem ekki séu með glugga.

Enn fremur benda samtökin á að ný varðhaldsbygging, Camp 6, hafi verið opnuð skömmu fyrir áramót. Vistin þar einkennist af öfgakenndri einangrun og skynfæratruflunum og brjóti að mati samtakanna í bága við alþjóðareglur um mannúðlega meðferð.

Ítrekar Amnesty International þá kröfu sína að fangabúðunum við Guantánamo-flóa verði lokað og að fangar verðir ákærðir og dæmdir í réttlátum réttarhöldum eða þeim sleppt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×