Erlent

Brixtofte dæmdur fyrir umboðssvik og embættismisnotkun

Dómstóll í Hilleröd í Danmörku dæmdi í morgun Peter Brixtofte, fyrrverandi bæjarstjóra í sveitarfélaginu Farum í útjaðri Kaupmannahafnar, í tveggja ára fangelsi fyrir gróf umboðssvik og misnotkun á embætti sínu.

Dómurinn sakfelldi Brixtofte meðal annars fyrir að hafa misfarið með milljónir danskra króna af fé bæjarins með því að láta hann gangast í ábyrgðir sem ekki var heimild fyrir og sömuleiðis fyrir að hafa tekið milljónalán fyrir bæjarfélagið og notað þau án þess að fá til þess leyfi hjá bæjarráði Farum.

Brixtofte var einnig sakfelldur fyrir að hafa látið bæinn borga reikninga á veitingahúsum sem voru bænum óviðkomandi. Þá var hann dæmdur til að greiða margar milljónir danskra króna í sakarkostnað.

Brixtofte hafði áður verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa látið bæjarsjóð Farum yfirborga fyrirtækinu Skanska 9 milljónir danskra króna fyrir byggingu á vegum bæjarins. Í staðinn lagði Skanska fram um 10 milljónir danskra í styrk til handboltaklúbbsins Ajax-Farum. Klúbburinn var dótturfélag Farum Boldklub þar sem Brixtofte var formaður og hluthafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×