Íslenski boltinn

Ásmundur: Alltaf möguleiki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásmundur Arnarsson ræðir við fjölmiðlamenn á blaðamannafundi í vikunni. Magnús Ingi Einarsson, fyrirliði Fjölnis, er í bakgrunni.
Ásmundur Arnarsson ræðir við fjölmiðlamenn á blaðamannafundi í vikunni. Magnús Ingi Einarsson, fyrirliði Fjölnis, er í bakgrunni. Mynd/E. Stefán

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, segir að sínir menn þurfi að ná sínum besta leik til að eiga möguleika gegn FH-ingum í bikarúrslitaleiknum á morgun.

„Við hlökkum mikið til og ætlum við að enda þetta skemmtilega sumar á þessum ævintýralega leik," sagði Ásmundur við Vísi.

Hann segir að það sé mikill spenningur í sínum mönnum en að sínir leikmenn þurfi að sýna sitt allra besta til að eiga möguleika gegn FH.

„Spennustigið verður mikið í leiknum og verða menn að hrista það af sér sem allra fyrst í byrjun leiksins. Við þurfum að verjast vel og loka á gott lið FH-inga. Ef það gengur vel ættum við að eiga möguleika á því að sækja hratt. Ef við náum að standa í þeim og ná upp hörkuleik er alltaf möguleiki fyrir hendi."

Mikið var rætt um hvort þeir Atli Viðar Björnsson og Heimir Snær Guðmundsson fengu að taka þátt í leiknum en þeir voru í sumar lánaðir til Fjölnismanna frá FH. Á endanum ákvað stjórn knattspyrnudeildar FH að samningar skyldu standa og þeir fengu ekki að spila á móti FH.

„Atli Viðar hefur skorað mikið af mörkum fyrir okkur í sumar en sóknarleikurinn byggist upp á fleirum en einum manni. Sú staða hefði getað komið upp að einn okkar sóknarmanna hefði meiðst fyrir þennan leik. Þá værum við í sömu stöðu og nú. Ég vonast auðvitað til þess að það komi maður í manns stað og við spilum ekki síðri sóknarleik en við höfum gert hingað til."

Bikarmeistararnir fá þátttökurétt í UEFA-bikarkeppninni en Ásmundur segir að hann hugsi ekki um það. „Það er bara eitthvað sem fylgir þessum leik. Aðalatriðið er að menn þjappi sér saman og nái góðum leik."


Tengdar fréttir

Vísir hitar upp fyrir bikarúrslitin

Á laugardaginn mætast lið FH og Fjölnir í bikarúrslitaleik karla. Vísir mun næstu daga fjalla ítarlega um leikinn.

Tryggvi: Var að losna í bikarskápnum

Tryggvi Guðmundsson, leikmaður FH, á ekki von á því að sínir menn rúlli yfir Fjölnismenn í bikarúrslitaleiknum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×