Erlent

Ætla að lýsa yfir sjálfstæði snemma á næsta ári

Stjórnvöld í Kosovo segjast ætla að lýsa yfir sjálfstæði snemma á næsta ári. Frestur til að semja um framtíð Kosovo rennur út í dag.

Stjórnvöld í Kosovo segjast munu lýsa yfir sjálfstæði í nánu samráði við Bandaríkin og Evrópusambandið. Þeir geti hins vegar ekki beðið lengi, enda krefjast landsmenn aðgerða.

Af ríkjum Evrópusambandsins eru Grikkir einir harðir á móti sjálfstæði Kosovo. Rússar vöruðu í dag sterklega við yfirlýsingu um sjálstæði og sögðu að það gæti skapað fordæmi um víða veröld.

Meðal þjóðarbrota sem bíða eftir að draga eigin fána að hún eru þessi. Rússar í Transdníestríu, sem er landræma í Moldóvu. Landar þeirra í Abkasíu og Suður-Ossetíu hafa líka barist fyrir sjálfstæði frá Georgíu. Svipaða sögu má segja af Nagorno Karabakk, þar sem Armenar búa en er formlega hluti af Aserbædjan. Ekki þarf heldur að fara lengra en til Kýpur til að finna tyrkneskt þjóðarbrot sem hefur lýst yfir sjálfstæði. Á Spáni hafa aðskilnaðarsamtök Baska lengi barist fyrir eigin þjóðlandi og í Tyrklandi eiga Kúrdar sér draum um Kúrdistan.

Sjálfstæði Kosovo myndi hvetja öll þessi þjóðarbrot til dáða - því þá væri hoggið skarð í þá meginreglu að landamærum ríkja verði ekki breytt - og alls ekki nema með samkomulagi allra hlutaðeigandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×