Erlent

Rússar óttast stríðsátök í Íran

Bernard Kouchner og Sergei Lavrov, utanríkisráðherrar Frakka og Rússa á blaðamannafundi í Moskvu í dag.
Bernard Kouchner og Sergei Lavrov, utanríkisráðherrar Frakka og Rússa á blaðamannafundi í Moskvu í dag. MYNDAFP

Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa lét í dag hafa eftir sér að hann hræddist yfirvofandi hættu á stríði í Íran eftir samtal við franska utanríkisráðherrann, Bernard Kouchner. Á sunnudag ollu ummæli Kouchners um Íran mikilli spennu í Teheran, en hann sagði að heimurinn yrði að „undirbúa sig fyrir það versta, og það versta væri stríð."

Mohamed ElBaradei yfirmaður kjarnorkueftirlitsdeildar Sameinuðu þjóðanna sagði að valdi ætti einungis að beita sem neyðarúrræði til að leysa deiluna við Írani.

Lavrov sagði að vopnavald væri engin lausn á nútíma vandamálum, ekki heldur kjarnorkuáætlun Írana sem felur í sér auðgun úrans. Hann sagði Rússa áhyggjufulla vegna frétta af því að verið sé að íhuga að beita vopnavaldi í Íran. Það væri ógn við heimshlutann sem þegar á við alvarleg vandamál að etja í Írak og Afghanistan.

„Allt sem í okkar valdi stendur ætti að vera gert til að forðast stríð. Við verðum að semja, semja, semja - án þess að hætta eða gefast upp."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×